Allskonar fyrir íbúa?

„Hvað ætlið þið að gera svo Akranes verði enn betri bær?“ Þetta er spurning sem við fáum oft að heyra þessa dagana, enda vilja kjósendur eðlilega fá að vita hvað við, frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins, ætlum okkur að gera og hvernig stefnuskrá flokksins muni líta út. Þegar stórt er spurt skiptir svarið miklu máli. „Allskonar fyrir íbúa“ gæti til dæmis verið ágætis svar, en tæplega raunhæft eða tæmandi.Sigríður Indriðadóttir

Við vitum að það er gott að búa á Akranesi og höfum auk þess ýmsar hugmyndir um hvað hægt er að gera, breyta og bæta til að gera bæinn okkar enn betri. En við vitum líka að bæjarbúar á Akranesi hafa skoðanir á því hvað er vel gert og hvað má betur fara. Frambjóðendur eru ekki einir um það. Án efa hafa þeir sem eiga börn á grunnskólaaldri skoðanir á starfsemi skólanna, aðstöðu til íþróttaiðkunar og strætóferðum um bæinn svo dæmi séu tekin. Háskólanemar hafa eflaust skoðanir á húsnæðismálum og samgöngum og velta kannski fyrir sér hvort mögulegt sé að búa áfram á Akranesi þó maður stundi nám í Reykjavík. Þeir hugsa eflaust líka um hvaða möguleikar séu á því að finna starf við hæfi á Akranesi að námi loknu og hentugt húsnæði til að búa í.

Við eigum að leyfa okkur að hafa skoðanir á öllum málum og vera tilbúin að koma hugmyndum okkar á framfæri, okkur og bænum til framdráttar. Nú stendur yfir málefnavinna Sjálfstæðisflokksins. Frambjóðendur hans vilja að bærinn okkar geti vaxið og þróast í rétta átt og að hér verði enn betra samfélag þar sem íbúunum líður vel. Því er mikilvægt að íbúar á Akranesi fái tækifæri til að taka þátt í þessari vinnu með okkur.

Nú er tækifærið því um helgina og í næstu viku verða opnir málefnafundir hjá okkur. Hvað brennur á Akurnesingum? Hvaða verkefni á að setja í forgang? Málefnafundirnir verða haldnir á kosningaskrifstofu Sjálfstæðisflokksins að Skólabraut 26-28 og eru auglýstir á öðrum stað hér í blaðinu. Við hvetjum fólk á öllum aldri til að koma og ræða við okkur um þeirra skoðanir á því hvað geri bæinn okkar enn betri.

Sigríður Indriðadóttir.

Höfundur skipar 2. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins á Akranesi.

You may also like...