Fjölgum íbúum Akraness

Þrátt fyrir að íbúum Akraness hafi fjölgað mikið undanfarinn áratug gæti þeim fjölgað talsvert meira, án þess að bæjarfélagið þyrfti að grípa til kostnaðarsamra lóðaframkvæmda. Þvert á móti eru miklir fjármunir bæjarfélagsins bundnir í tilbúnum íbúðalóðum af ýmsum gerðum. Það er því í tvennum skilningi talsvert fjárhagslegt hagsmunamál fyrir bæjarfélagið að íbúum fjölgi á næstu árum.
Annars vegar að fá greiddan til baka þann kostnað sem lagt var útí við gerð áðurnefndra lóða og hins vegar að fjölga útsvarsgreiðendum í bæjarfélaginu.

Á iðnaðarsvæðinu á Grundartanga starfa fjölmargir sem þurfa að fara langan og kostnaðarsaman veg til vinnu frá sveitarfélögum sunnan ganga. Auk þess eru teikn á lofti um að störfum þar gæti fjölgað mjög á allra næstu árum. Það er því löngu tímabært að gera tilraun til þess að laða að í það minnsta hluta þessara starfsmanna til búsetu á Akranesi. Við þurfum að markaðssetja Akranes með skipulögðum hætti fyrir þessum starfsmönnum og fjölskyldum þeirra. Skoða þarf vandlega hvort í slíku markaðsátaki mætti ívilna tímabundið nýjum íbúum. Slík tímabundin ívilnun má þó aldrei verða til þess að skapa mismunun milli íbúa bæjarins.

Akranes er góður búsetukostur, það vitum við sem hér búum. Við þurfum að mæta öllum hugmyndum með opnum huga, minnug þess að sveltur sitjandi kráka en fljúgandi fær.

Katla María Ketilsdóttir
Höfundur á sæti í starfshópi um atvinnu- og ferðamál á vegum Akraneskaupstaðar
og skipar 7. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins á Akranesi.

You may also like...