Gerum betur í sorpmálum

Saga sorpflokkunar á Akranesi er á margan hátt þyrnum stráð. Skemmst er að minnast tilraunar sem gerð var á sínum tíma en rann út í sandinn þegar í ljós kom að allt flokkaða sorpið var eftir sem áður urðað á sama stað og áður. Núverandi skipulag, sem hófst árið 2008, hefur hins vegar skilað þeim árangri að sorpmagn til urðunar frá hverjum íbúa er aðeins helmingur af því sem það var um síðustu aldamót. En betur má ef duga skal.
Fyrirtæki og stofnanir hafa fram að þessu ekki þurft á sama hátt og heimilin að flokka sorp. Því þarf að breyta á næstu árum þannig að sömu reglur gildi fyrir alla.

Hin hliðin á þessum árangri er sú fjárhagslega. Bæjarfélagið greiðir í dag talsvert minna í urðunargjöld en áður. Sorphirðugjöld íbúa hafa hins vegar ekki lækkað á móti og það gengur ekki. Bæjarbúar eiga að finna fjárhagslegan mun á því að hafa sjálfir skapað bæjarfélaginu sparnað. Sorphirðugjöld á hverjum tíma verða því að endurspegla þann kostnað sem bæjarfélagið sannanlega hefur af sorphirðunni. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins á Akranesi munu fylgja því fast eftir á næsta kjörtímabili að sorphirðugjöld lækki til jafns við lækkandi kostnað bæjarfélagsins. Aðeins þannig tryggjum við áframhaldandi árangur í þessum málum.

Ingþór Bergmann Þórhallsson
Höfundur er verslunar- og viðskiptastjóri hjá N1 og skipar 14. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins á Akranesi.

You may also like...