Hefur Akraneskaupstaður samfélagslegar skyldur?

1979860_712043502151184_1713811859_nFlestir myndu vafalaust svara þessari spurningu játandi. Að sjálfsögðu hefur Akraneskaupstaður samfélagslegar skyldur, alveg eins og hver og einn íbúi bæjarins.

En þegar spurt er hvernig bærinn og íbúar hans rækja þessar samfélagslegu skyldur vandast málið. Íbúar sinna þessum skyldum t.d. með því að taka þátt í og styrkja starfsemi íþróttafélaga. Mörg okkar reyna líka að versla í heimabyggð. Með því styrkjum við þjónustu sem allir vilja hafa nálægt sér. Ég vil frekar kaupa brauðrist á Akranesi sem kostar 7.500 krónur þó ég viti af því að sama brauðrist gæti fengist á 7.000 krónur í Reykjavík. Fyrir þennan fimmhundruð kall tryggi ég mér að geta leitað eftir þjónustu þegar ég þarf á að halda.

Akraneskaupstaður á að mínu mati að hafa ríkar samfélagslegar skyldur gagnvart atvinnulífinu í bænum alveg eins og gagnvart íbúunum. Bæjarfélagið þarf að hlúa að bæði fólki og fyrirtækjum ef svo má að orði komast. En þar er oft auðveldara um að tala en í að komast. Það er ekki nóg að gera áætlanir um fjölgun fyrirtækja heldur verður ekki síður að styrkja þau fyrirtæki sem þegar eru til staðar. Og hver er besta leiðin til þess?  Jú, með því að fylgja fordæmi bæjarbúa og versla í heimabyggð.

Ég veit að bæjaryfirvöld þurfa að tipla á tánum í þessum málum því um opinber innkaup gilda lög og reglur sem miða að því að allir sitji við sama borð í viðskiptum við bæjarfélagið. Enginn má skilja orð mín svo að ég vilji hverfa frá því grundvallaratriði.

Bæjarfélagið þarf að móta sér skýra stefnu í þessum efnum sem stenst þau lög og reglur er gilda. Er það sjálfsagður hlutur að bæjarfélagið leggi að jöfnu verð frá heildsala í Reykjavík og verð í smásöluverslun á Akranesi? Með því að leggja slíkt að jöfnu er bæjarfélagið í raun að ýta verslun til Reykjavíkur og í raun að vega að smásölunni í heild.

Ég vil nefna eitt dæmi í þessu sambandi. Á dögunum voru opnuð tilboð í slátt á opnum svæðum í bænum. Heimamaður með rótgróið fyrirtæki var næst lægstur. Lægsta tilboðið kom frá fyrirtæki í Reykjavík. Munur á tilboðunum var 1,8% og bæði voru þau undir kostnaðaráætlun bæjarins. Í mínum huga er enginn vafi á því að tilboð heimamannsins var mun hagkvæmara þegar á heildina er litið fyrir samfélagið.

Bæjaryfirvöld á Akranesi eiga að móta sér þær reglur við útboð, að til mats komi hversu stór hluti vinnuþáttarins verði unninn af útsvarsgreiðendum innan sveitarfélagsins. Ég veit þetta er vandmeðfarið en verkefnin eru til þess að leysa þau. Þegar kemur að styrkingu byggðar á Akranesi má enginn skerast úr leik.

Við erum nefnilega öll sammála um, að það sé samfélagsleg skylda bæjarins að tryggja að fyrirtæki og fólk geti búið og starfað hér áfram. Sterkt og öflugt atvinnulíf er einn af máttarstólpum samfélagsins, ekki satt?

Sævar Jónsson

Höfundur skipar 8. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins á Akranesi.

You may also like...