Hvað er í matinn í skólanum?

Sjálfstæðisflokkurinn á Akranesi vill gera betur þegar kemur að skólamáltíðum. Við erum stolt af því að vera fyrsta framboðið á Íslandi til að setja fram í stefnuskrá að auka hlutfall lífrænna matvæla í skólum bæjarfélagsins.

Í lögum um grunnskóla frá árinu 2008 segir að nemendur skuli eiga þess kost að fá málsverð á skólatíma í samræmi við opinber manneldismarkmið. Börnin okkar verja stórum hluta dagsins í leikskólum, grunnskólum eða skóladagvist og mikilvægt er að þar standi þeim til boða hollur og góður matur. Það er misjafnt eftir skólastofnunum hvers konar fæðu börnunum er boðið upp á og engin stefna hefur verið mörkuð hvað varðar næringu leik- og grunnskólabarna á Akranesi.

Undanfarin ár og áratugi hefur framleiðsla á matvælum breyst og meira af aukaefnum eru notuð nú en áður. Einnig hafa unnin matvæli rutt sér til mjög til rúms en þau eru sögð ódýrari í innkaupum og taka styttri tíma í matreiðslu en óunnin matvæli.

Á opnum málefnafundum Sjáflstæðisflokksins í vor kom skýrt fram að foreldrar skólabarna á Akranesi vilja betri skólamáltíðir, án þess þó að verðið hækki. Við teljum að með því að marka heildstæða stefnu fyrir mötuneyti og gera sameiginleg innkaup sé slíkt hægt.

Aðstæður eru misjafnar milli stofnana en það á ekki að koma í veg fyrir að hægt sé að bjóða upp á næringarbetri máltíðir. Okkur finnst ennfremur mikilvægt að boðið sé upp á grænmeti og ávexti í auknum mæli, að lögð sé áhersla á að matreitt sé úr góðu hráefni og máltíðir séu eldaðar frá grunni. Um leið er hægt að draga verulega úr notkun á unnum matvælum og pakkamat. Þetta á að vera sjálfsagður réttur barna og unglinga, óháð því í hvaða skóla þau eru.

Skólastofnanir hafa einstakt tækifæri til að hafa áhrif á bættar neysluvenjur barna og unglinga ásamt því að fræða þau og kenna þeim um leið að njóta hollrar fæðu. Þannig er hægt að hafa jákvæð áhrif á heilsu og líðan nemenda á öllum skólastigum. Vel nærð börn og unglingar eiga auðveldara með að einbeita sér og ná betri árangri í starfi og leik.

Höfundar skipta 2., 4. og 5. sæti á framboðslista Sjáflstæðisflokksins á Akranesi.

You may also like...