Hvar er framkvæmdaáætlun Akraneskaupstaðar um jafnrétti kynjanna?

Sveitarfélögum eru lagðar á herðar ákveðnar skyldur í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Lögin tóku gildi árið 2008 og helsta skyldan er sú að jafnréttisnefnd hvers sveitarfélags skuli hafa umsjón með gerð jafnréttisáætlunar til fjögurra ára þar sem fram kemur hvernig skuli unnið að kynjasamþættingu á öllum sviðum. Einnig er í lögunum kveðið á um gerð framkvæmdaáætlunar um hvernig leiðrétta skuli mismun á stöðu kvenna og karla innan sveitarfélagsins.

Núverandi meirihluti bæjarstjórnar Akraness hefur enn ekki uppfyllt þessar lagalegu skyldur sínar, sem er dapurleg niðurstaða fjögurra ára valdatíðar flokka sem að minnsta kosti í orði kveðnu kenna sig jafnan við jafnfrétti. Rétt er að taka fram að nýverið lauk vinnu við gerð mannréttindastefnu Akraneskaupstaðar en þar kemur fram að til standi að ljúka aðgerðaráætlun í jafnréttismálum. Það er einmitt það sem mér finnst vera gagnrýni vert. Það stendur til. Þessi lögbundna framkvæmdaáætlun sem jafnréttislögin kveða á um að skuli gerð til fjögurra ára í senn hefur enn ekki litið dagsins ljós og kjörtímabilinu er nánast lokið. Hvernig má það vera?

Jöfn staða kynja er að mínu mati svo sjálfsögð að það á ekki að þurfa að nefna slíkt í kosningastefnuskrá. En þar sem Akraneskaupstaður hefur enn ekki uppfyllt þessa lagaskyldu hafa frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins, einir frambjóðenda til þessa, tekið það sérstaklega fram að ef við komumst til áhrifa mun bæjarfélagið meðal annars sækja um jafnlaunavottun. Þannig fæst staðfesting á því að konur og karlar hjá Akraneskaupstað fái sömu laun fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Slík vottun hefur rutt sér til rúms meðal þeirra fyrirtækja og stofnana þar sem orð og efndir fara saman í jafnréttismálum. Við ætlum okkur svo sannarlega að gera jafnréttismálum hærra undir höfði á komandi kjörtímabili. Það er ekki nóg að tala, það þarf líka að framkvæma.

Sigríður Indriðadóttir.
Höfundur skipar 2. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins á Akranesi.

You may also like...