Með nærgætni og samvinnu

Það hefur löngum verið skoðun framsækinna sveitarstjórnarmanna að færa eigi þjónustu hins opinbera nær íbúum með yfirtöku sveitarfélaga á fleiri verkefnum ríkisins. Þannig má tryggja bætta þjónusta við íbúa. Og aðeins þannig er hægt að réttlæta slíkan flutning verkefna.

Fáir efast lengur um að rétt skref var stigið með yfirtöku sveitarfélaga á rekstri grunnskóla. Með yfirtöku á málefnum fatlaðs fólks tókust sveitarfélögin á hendur nýtt og vandasamt hlutverk. Nú ættu hnökrar vegna yfirfærslunnar að heyra sögunni til.
Því er nú nauðsynlegt í ljósi reynslunnar að móta heildstæða stefnu og framkvæmdaáætlun um þjónustu Akraneskaupstaðar við fatlað fólk. Það er grundvallaratriði að slík stefnumótun fari fram í samráði við þá sem þjónustunnar njóta og fjölskyldur þeirra. Þörfum fatlaðs fólks er best mætt með einstaklingsmiðaðri þjónustu og sú þjónusta ber aldrei nafn með rentu án þess að mótast af hnökralausu samstarfi við aðstandendur.
Það sama á við um búsetuúrræði. Nokkra breytingar hafa átt sér stað í þeim málum á Akranesi undanfarið. Reynslan af þeim breytingum undirstrikar mikilvægi þess að þörfum og getu hvers og eins til búsetu sé mætt á eins fjölbreyttan hátt og mögulegt er.
Við þurfum líka að huga betur að aukinni þátttöku fatlaðs fólks í atvinnulífi bæjarins. Það gerum við best með sem bestu og nánustu samstarfi við fyrirtæki í bænum.

Umfram allt viljum við gera betur og mæta þörfum fatlaðs fólks með nærgætni og samvinnu.

Höfundur skipar 5 sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins á Akranesi

You may also like...