Með opnum huga

Ég tel það lán mitt að tengjast báðum grunnskólunum á Akranesi. Sjálfur gekk ég í Brekkubæjarskóla sælla minninga og tvær af dætrum mínum hafa lokið námi við Grundaskóla og sú þriðja unir vel sínum hag þar í þriðja bekk.

Eðli málsins samkvæmt hafa skólarnir vaxið og dafnað með bæjarfélaginu. Svo vel að þeir eru hvor um sig orðnir með stærstu vinnustöðum bæjarins. Fjöldi nemenda er nú kominn að þolmörkum húsnæðis skólanna. Í Brekkubæjarskóla eru nú ríflega 400 nemar við nám og í Grundaskóla eru þeir rúmlega 600 talsins. Í Þórður Guðjónssonbáðum skólum eru því öll rými nýtt og gott betur.

Árgangar hafa stækkað og munu stækka enn frekar á komandi árum. Fyrir þann tíma verður því að liggja fyrir hvernig við viljum byggja upp skólana okkar og í þeirri vinnu verðum við ávallt að horfa til framtíðar. Þar þarf að huga að ýmsum þáttum. Mikilvægt er að nálgast hlutina á sem hagkvæmastan hátt, hvernig bætt verður við húsnæði um leið og tryggt verður að skólastarfið sé sem allra best. Skagamenn eiga að tryggja með stolti sem bestar aðstæður fyrir bæði nemendur og starfsmenn. Skóli er meira en hús.

Við eigum að mæta þessum áskorunum með opnum huga. Í þessari vinnu eigum við að sameina krafta bæjarbúa öllum til heilla. Getum við tryggt stoðirnar og gert enn betur með auknum tengslum skólastiga á Akranesi? Getum við aukið gæði starfsins með tryggum kjörum starfsmanna en um leið hagrætt þannig að hverri krónu sem sé best varið með hagsmuni nemanda að leiðarljósi?

Á næstu vikum þurfa frambjóðendur til bæjarstjórnar á Akranesi að ræða stefnumál sín í skólamálum. Þeirri umræðu ætla ég að mæta ásamt félögum mínum með opnum huga. Tryggja lifandi umræðu um framtíðarskipan skólamála á Akranesi með það eitt að markmiði að gera gott skólastarf enn betra.

Skólakveðjur

Þórður Guðjónsson

Höfundur skipar 6.sæti á lista Sjálfstæðismanna á Akranesi

You may also like...