Tillaga bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um íbúaþing um skólamál á árinu 2019

Við Skagamenn eigum frábæra leik- og grunnskóla  og  tónlistarskóla sem sveitarfélagið rekur. Við búum jafnframt svo vel að vera með framhaldsskóla í bæjarfélaginu, skóla sem sinnir iðnmenntun sem er ekki síður mikilvægt. Allar þessar stofnanir gera bæinn okkar að aðlaðandi kosti fyrir fólk að búa á og því er mikilvægt að við leggjum rækt við þær.

Reksturinn á leik- og grunnskólum bæjarfélagsins hefur verið framúrskarandi á landsvísu þegar horft er til mælikvarða eins og hlutfall kennara með kennsluréttindi, fjölda íbúa fyrir hvert stöðugildi kennara, fjölda nemenda á hvert stöðugildi kennara og ef horft er á rekstrarkostnað á hvern íbúa. Þá hefur árangur nemenda verið góður og bæði íbúar og starfsfólk verið ánægð með skólastarfið. Til þess að viðhalda þessum góða árangri þurfum við að halda áfram að þróa starfsemina og breyta henni í takt við nýja tíma. Ef við Skagamenn viljum halda áfram að vera í forystu hvað varðar leik- og grunnskóla þá þurfum við að vera vakandi fyrir þeim áhrifum sem breytt tækni sem og breytt samfélagsmynstur hafa á skólastarf og væntingar bæði íbúa og þeirra sem starfa í leik- og grunnskólum.

Það liggur fyrir vinna starfshópa sem skilað var 2007 og 2013 og jafnframt skýrsla Gunnars Gíslasonar frá 2015 um skipulag leik- og grunnskólastarfs á Akranesi. Tillögurnar hafa verið af margvíslegum toga og áhugaverðar. Rekstur leik- og grunnskóla var um 38% af rekstri deilda og sviða A-hluta kaupstaðarins á árinu 2017 og því er mikilvægt að taka vel ígrunduð skref þegar kemur að fjárfestingum í skólahúsnæði og framtíðarskipulagi skólastarfs. Nú er að störfum starfshópur sem er að meta framtíðarþörf á leikskólaplássum hér á Akranesi og er starfshópnum ætlað að skila tillögum í apríl 2019. Vinna þess starfshóps er mikilvægt innlegg í þessa umræðu. Það er líka mikilvægt að við, kjörnir fulltrúar, eigum samtal og samráð við íbúa bæjarins. Að gott samtal eigi sér stað um þær tillögur sem nú þegar liggja fyrir í skýrslum starfshópa og sérfræðinga, sem og um tillögur sem von er á frá starfshópi um framtíðarþörf á leikskólaplássum og að við mótum í samráði við íbúa framtíðarstefnu í þessum mikilvæga málaflokki sem er menntun barnanna okkar.

Við Sjálfstæðismenn ræddum hugmyndir um íbúaþing í kosningabaráttunni í vor og fundum fyrir áhuga íbúa á að taka þátt í að móta framtíðina varðandi skipulag skólastarfs á Akranesi. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til við Bæjarstjórn Akraness að haldið verði íbúaþing um skólamál á Akranesi og Skóla- og frístundaráði verði falið að útfæra og undirbúa slíkt íbúaþing á næsta ári með það að markmiði að hægt verði að nýta niðurstöðurnar af íbúaþinginu í vinnu við fjárhags- og fjárfestingaráætlun fyrir árið 2020.

Rakel Óskarsdóttir

Sandra Margrét Sigurjónsdóttir

Einar Brandsson

Ólafur Adolfsson

You may also like...