Tryggjum jafnræði og framfarir í samgöngumálum

1459112_712043418817859_766004124_nMeð tilkomu Hvalfjarðarganga stækkaði náms- og atvinnusvæði Skagamanna mikið suður á bóginn. Á undanförnum árum hafa framkvæmdir í samgöngumálum á þessum hluta landsins hins vegar setið á hakanum. Má þar nefna gerð Sundabrautar og þjóðveginn um Kjalarnes. Þau gleðitíðindi hafa nú orðið að gerð Sundabrautar er nú komin í drög að samgönguáætlun og er það vel.

Gjaldtaka af umferð er viðvarandi umræðuefni hjá þeim sem nýta Hvalfjarðargöng að staðaldri enda eina umferðarmannvirkið sem greiða þarf í á Íslandi. Þessi umræða komst í hámæli fyrir nokkru þegar stjórn Spalar kynnti hugmyndir um ný göng undir Hvalfjörð þar sem áfram var gert ráð fyrir gjaldtöku. Sem kunnugt er lýkur gjaldtöku núverandi ganga árið 2018 að óbreyttu.

Á sínum tíma var skiljanlegt að gerð væri krafa um gjaldtöku í Hvalfjarðargöng. Réði þar mestu óvissa og áhætta um framkvæmdina sem slíka og hitt að vegfarendur höfðu val um að keyra fyrir fjörð. Þær forsendur eru hvorugar til staðar lengur. Óvissan um framkvæmdina sem slíka er engin og vegurinn um Hvalfjörð getur engan veginn talist valkostur í ljósi þeirrar aukningar sem orðið hefur í umferð og flutningum á landi. Hugsanleg gjaldtaka í Hvalfjarðargöng til frambúðar á því engan veginn rétt á sér. Sú gjaldtaka veldur misrétti sem ekki er hægt að sætta sig við.

Þó samgöngumál utan bæjarmarka séu ekki lögbundið hlutverk sveitarfélaga er mjög áríðandi að bæjarstjórn Akraness beiti sér í þessum málum og þrýsti á um framgang nauðsynlegra framkvæmda. Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins á Akranesi munu gera það komist þeir til áhrifa og jafnframt berjast fyrir því að jafnræði verði meðal þegna landsins þegar kemur að gjaldtöku á ferð okkar um landið. Álögur á eitt svæði umfram önnur kemur að okkar mati ekki til álita, allir eiga að sitja við sama borð.

Valdís Eyjólfsdóttir.

Höfundur skipar 4. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins á Akranesi

You may also like...